Pep Lijnders, aðstoðarþjálfari enska knattspyrnufélagsins Liverpool, stýrði liðinu í fjarveru knattspyrnustjórans Jürgens Klopps, sem er smitaður af kórónuveirunni, í frábærum leik þess gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Liverpool var án nokkurra lykilmanna sinna þar sem Alisson, Roberto Firmino og Joel Matip eru einnig smitaðir af kórónuveirunni, Thiago er að glíma við meiðsli á mjöðm og Andrew Robertson var í leikbanni.
Liðið lék þrátt fyrir það vel í æsispennandi leik sem lauk með 2:2 jafntefli eftir að Liverpool hafði komist í 0:2.
„Það er aldrei leiðinlegt þegar við erum annars vegar, er það nokkuð? Við erum mjög stoltir af strákunum því þeir spiluðu alvöru fótboltaleik.
Við hefðum getað komið með alls kyns afsakanir en við gerðum það ekki, við réðumst á þennan leik,“ sagði Lijnders við BBC Radio 5 eftir leikinn í gærkvöldi.
Hann hrósaði einnig Chelsea, sem var sömuleiðis án nokkurra lykilmanna í gær, þar á meðal Reece James, Romelu Lukaku og Timo Werner.
„Það var gífurleg ákefð frá báðum liðum allt frá upphafi. Þegar allt kemur til alls hefur þetta verið ótrúlegur leikur fyrir almenning að horfa á,“ sagði Lijnders.