Besta lið sem við höfum mætt

Ralf Rangnick reynir að koma skilaboðum til sinna manna í …
Ralf Rangnick reynir að koma skilaboðum til sinna manna í leiknum á Old Trafford í kvöld. AFP

Ralf Rangnick knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir fyrsta ósigur sinn í ensku úrvalsdeildinni í kvöld að Wolves væri besta liðið sem United hefði mætt eftir að hann tók við starfinu.

„Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik, hvorki sem einstaklingar eða sem lið, og áttum í mestu vandræðum með að halda leikmönnum Wolves frá marki okkar," sagði Rangnick við Sky Sports.

„Í seinni hálfleik breyttum við yfir í þriggja manna vörn og náðum betri stjórn á leiknum á fimmtán mínútna kafla þar sem við hefðum getað skorað. Þegar við fengum á okkur markið vorum við með nóg af leikmönnum í vítateignum. Jones var búinn að verjast fyrirgjöfinni en síðan fengum við á okkur svipað mark og of oft áður á tímabilinu. Moutinho gat skotið óhindrað og fékk enga pressu á sig. Við erum mjög óánægðir með úrslitin og með frammistöðuna að hluta," sagði Þjóðverjinn.

„Þeir léku með fjóra eða fimm inni á miðjunni og við áttum í vandræðum með að ná tökum á þeim hluta vallarins. Við ákváðum að breyta um aðferð og náðum betri stjórn á leiknum, þeir sköpuðu sér ekki eins mörg færi, en við nýttum ekki okkar færi og verðum að viðurkenna að sigur þeirra var sanngjarn.

Wolves er besta liðið sem við höfum mætt. Við lentum í meiri vandræðum í dag en í hinum leikjunum. Þeir skora ekki mörg mörk og í dag skoruðu þeir eina markið. Í dag snerist þetta um hvort liðið myndi skora á undan.

Við pressuðum þá alls ekki. Við reyndum en komum okkur ekki í stöður til þess. Þeir fjölmenntu á miðjunni og spiluðu í gegnum kantbakverðina. Við höfum aðeins náð að vinna saman í tvær og hálfa eða þrjár vikur eftir að æfingasvæðinu okkar var lokað og úrslitin eru eftir því. Við spiluðum vel á köflum en verðum að viðurkenna að þeir voru betri en við," sagði Ralf Rangnick.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert