Fyrirliðinn meiddur – spilar Jones í kvöld?

Phil Jones svekktur í leik með Manchester United á sínum …
Phil Jones svekktur í leik með Manchester United á sínum tíma. AFP

Harry Maguire, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Manchester United, er meiddur og getur því ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

The Athletic greinir frá en þó er ekki enn vitað hvað er að plaga Maguire og því óljóst hversu lengi hann verður frá.

Eric Bailly fór af velli í síðasta leik Man. United, 3:1- sigri gegn Burnley, þann 30. desember síðastliðinn eftir að hafa stífnað aftan í læri og er því tæpur fyrir leikinn í kvöld.

Raphael Varane var hvíldur í leiknum gegn Burnley en er klár í slaginn í kvöld. Victor Lindelöf er hins vegar enn að jafna sig eftir að hafa smitast af kórónuveirunni.

Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Man. United, stendur því frammi fyrir talsverðu miðvarðahallæri fyrir leikinn gegn Úlfunum.

Samkvæmt The Athletic gæti Phil Jones, sem spilaði síðast leik fyrir Man. United í ensku úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum, fengið tækifærið í byrjunarliðinu eftir að hafa staðið sig vel á æfingum að undanförnu, þó leikform hans sé lítið sem ekkert.

Sé Bailly heill verður hann við hlið Varane í hjarta varnarinnar og þá gæti varnartengiliðurinn Nemanja Matic verið bráðabirgðalausn í miðvörðinn ef þörf krefur.

Leikur Man. United og Úlfanna hefst klukkan 17.30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert