Lykilmaður Chelsea samdi til 2023

Thiago Silva í leik með Chelsea.
Thiago Silva í leik með Chelsea. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea framlengdi í dag samninginn við brasiliska miðvörðinn Thiago Silva um eitt ár og hann er nú samningsbundinn Lundúnafélaginu til vorsins 2023.

Silva er 37 ára gamall og kom til Chelsea frá París SG sumarið 2020. Hann tók þátt í sigri liðsins í Meistaradeildinni síðasta vor og er í stóru hlutverki í varnarleik liðsins.

Hann lék með Parísarliðinu í átta ár en áður með AC Milan á Ítalíu í þrjú ár. Frumraun hans í Evrópu var með Porto í Portúgal á árunum 2004-2006 en hann komst þó aldrei í aðallið félagsins og sneri þá aftur til Brasilíu og lék með Fluminese í þrjú ár.

Silva er enn fastamaður í brasilíska landsliðinu og lék sinn 100. landsleik seint á síðasta ári. Leikirnir eru orðnir 102, níu þeirra á árinu 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert