Í fyrsta skipti í tvo mánuði fækkaði kórónuveirusmitum meðal leikmanna og starfsfólks ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á milli vikna.
Nýtt met var sett í vikunni 19. til 26. desember þegar 103 greindust með kórónuveiruna og þá hafði verið stöðug hækkun frá viku til viku í átta vikur.
Í vikunni 27. desember til 2. janúar voru smitin hinsvegar 94 talsins, úr samtals 14.250 skimunum vikunnar.
Alls hefur sautján leikjum í deildinni verið frestað frá byrjun desember en félögin ákváðu fyrir jól að halda sínu striki og spila um jól og áramót alla leiki sem á annað borð var mögulegt að láta fara fram.