Þess vegna vinnur City deildina en ekki Liverpool

Chelsea og Liverpool skildu jöfn, 2:2, á Stamford Bridge í …
Chelsea og Liverpool skildu jöfn, 2:2, á Stamford Bridge í gær eftir að Liverpool komst í 2:0. AFP

Jamie Carragher, varnarjaxlinn sem lék allan sinn sautján ára feril með Liverpool, segir að ástæða þess að Manchester City verði enskur meistari í vor en ekki Liverpool sé augljós.

Carragher, sem nú er sérfræðingur Sky Sports, sagði í umræðum þar um leiki síðustu umferðar að gamalt vandamál hefði skotið upp kollinum hjá Liverpool á ný. Það missi of oft niður forskot í leikjum, rétt eins og gegn Chelsea á Stamford Bridge í gær, og þar skilji á milli liðanna í toppslagnum.

„Það hljóta alltaf að vera vonbrigði að tapa niður forystu, ég tala nú ekki um þegar þú kemst í 2:0 gegn einum mesta keppinautnum. Þú hlýtur að vera vonsvikinn en ég held að hjá Liverpool séu menn sáttir með stigið. Það sést best á innáskiptingunni þegar Sadio Mané var tekinn af velli og Curtis Jones settur inn á.

En það er einmitt þess vegna sem Liverpool vinnur ekki deildina í vetur. Liverpool hefur tekið forystuna sautján sinnum á tímabilinu, jafnoft og Manchester City, en City hefur unnið í hvert einasta skipti. Liverpool hefur á meðan unnið tólf sinnum. Það sem Liverpool skortir frá tímabilinu þegar það varð meistari er að stjórna leiknum.

Það sem við sáum í þessum leik gegn Chelsea og líka gegn Tottenham var það sama og var hjá Jürgen Klopp á fyrsta og öðru ári hans hjá félaginu. Í fimm skipti þar sem Liverpool hefur komist yfir í leik í vetur hefur liðið ekki náð að vinna og það er einmitt þetta sem skilur að Liverpool og Manchester City,“ sagði Carragher.

Virgil van Dijk var ekki með á nótunum þegar Chelsea …
Virgil van Dijk var ekki með á nótunum þegar Chelsea jafnaði metin, að mati Jamie Carraghers. AFP

Van Dijk var ekki á tánum

„Mér hefur fundist stundum í vetur að það sé á mörkunum að Liverpool nái að höndla toppbaráttuna. Það gæti verið vegna þess að miðjan setur ekki nógu mikla pressu á boltann í vetur en mér  finnst miðjan hafa verið vandamál liðsins. Línan er sú sama en pressan á boltann er ekki nógu góð og þar með þarftu oftar að bakka aftar á völlinn.

Þetta þýðir ekki að Liverpool geti ekki hápressað en það hefur gerst oftar í vetur að varnarlína liðsins hefur þurft að bakka. Það gerðist gegn West Ham og kostaði liðið þann leik. Mótherjarnir reyna að halda þeim aftarlega því miðverðir Liverpool eru alltaf í línu en valda ekki hvor annan. Ástæða þess að Pulisic skoraði fyrir Chelsea var sú að van Dijk var bara gangandi til að byrja með, var ekki á tánum. Bilið á milli hans og Konaté var því of mikið og hann náði ekki að komast fyrir Pulisic,“ sagði Carragher.

Úrslit helgarinnar þar sem City vann Arsenal 2:1 á útivelli og Chelsea og Liverpool skildu jöfn þýða að City er með 53 stig á toppnum, Chelsea 43 og Liverpool 42. Liverpool á einn leik til góða á keppinautana, heimaleik gegn Leeds sem var frestað um jólin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert