Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eiga nú í viðræðum við Barcelona um kaup á franska sóknarmanninum Ousmane Dembélé. Það er Sport sem greinir frá þessu.
Dembéle, sem er 24 ára gamall, hefur engan veginn staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans hjá Barcelona eftir að hann kom til félagsins frá Borussia Dortmund árið 2017 fyrir 90 milljónir punda.
Samningur hans við Barcelona rennur út næsta sumar en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Spáni og íhuga Börsungar nú að selja hann á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann.
Þá greinir Sport einnig frá því að United íhugi að senda Frakkann Antony Martial á láni til Barcelona en Martial hefur verið orðaður við brottför frá félaginu þegar janúarglugginn verður opnaður.
Martial var sterklega orðaður við Sevilla á Spáni á dögunum en United er sagt hafa hafnað tilboði spænska félagsins í leikmanninn.