Allt að ellefu ósáttir leikmenn Manchester United gæti farið fram á að losna frá félaginu í kjölfar þess að Ralf Rangnick var ráðinn knattspyrnustjóri í sta Ole Gunnars Solskjærs.
Daily Mirror fjallar um þetta í kvöld og segir að mikið gangi á bak við tjöldin í leikmannahópi United. Rangnick glími við stórt vandamál sem sé vantrú leikmannanna á þjálfun og leikaðferðum Þjóðverjans og þeir telji jafnframt aðstoðarmenn hans vanhæfa til að koma að þjálfuninni.
Margir leikmanna United virtust áhugalitlir í tapleiknum gegn Wolves á Old Trafford í gær, 0:1.
Jesse Lingard, Donny van de Beek, Eric Bailly og Dean Henderson markvörður eru taldir upp sem nokkrir þeirra sem vilji yfirgefa félagið en þeir fengu fá tækifæri hjá Solskjær og sama er að segja eftir að Rangnick tók við. Daily Mirror segir að samkvæmt sínum heimildum séu það allt að ellefu leikmenn sem vilji komast eitthvert annað sem fyrst.
Gary Neville, sérfræðingur Sky Sports og fyrrverandi leikmaður United, sagði á dögunum að leikmannahópur félagsins væri sundurleitur og skiptur niður í litlar klíkur, og gaf í skyn að Cristiano Ronaldo og fyrirliðinn Harry Maguire ættu ekki skap saman.