Eriksen eftirsóttur á Englandi

Christian Eriksen gæti snúið aftur til Englands.
Christian Eriksen gæti snúið aftur til Englands. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina en hann hefur æft einn síns liðs undanfarna daga í Sviss eftir að hann rifti samningi sínum við Inter Mílanó á Ítalíu.

Eriksen fór í hjartastopp á Evrópumeistaramótinu í sumar í leik Danmerkur og Finnlands á Parken í Kaupmannahöfn í júní en gangráður var græddur í hjarta hans eftir atvikið í sumar.

Ekki má spila með gangráð á Ítalíu og því komust Inter og Eriksen að þeirri sameiginlegri niðurstöðu að hann myndi yfirgefa félagið.

Sportsmail greinir frá því að fjöldi liða á Englandi hafi áhuga á leikmanninum, þar á meðal Tottenham, hans fyrrverandi félag, en Antonio Conte stýrir Tottenham í dag.

Conte og Eriksen unnu saman hjá Inter Mílanó á síðustu leiktíð þegar liðið varð ítalskur meistari og þekkjast því vel.

Þá hefur Eriksen einnig verið orðaður við félög í Hollandi og í Skandinavíu en hann lék með Ajax áður en hann gekk til liðs við Tottenham árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert