Fjárfestu í öðrum bakverði

Nathan Patterson, til hægri, í leik með Rangers gegn Sparta …
Nathan Patterson, til hægri, í leik með Rangers gegn Sparta Prag í Evrópudeildinni í nóvember. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton keypti sinn annan leikmann á þessu ári í dag og hann er bakvörður rétt eins og sá fyrri.

Umræddur leikmaður er Nathan Patterson, hægri bakvörður sem kemur frá skoska meistaraliðinu Rangers fyrir 16 milljónir punda en hann er aðeins tvítugur og á að baki sex A-landsleiki fyrir Skotland þar sem hann hefur skorað eitt mark.

Á nýársdag gekk Everton frá kaupum á vinstri bakverði, hinum úkraínska Vitaliy Mykolenko frá Dynamo Kiev fyrir 18 milljónir punda.

Patterson er uppalinn hjá Rangers og hefur verið í röðum félagsins frá átta ára aldri. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Skota og kom inn í A-landsliðið á árinu 2021 en á aðeins 26 leiki að baki með aðalliði Rangers, níu þeirra í Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert