Lukaku kominn aftur í hópinn hjá Chelsea

Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, staðfesti í dag að Romelu Lukaku, belgíski framherjinn, yrði í hópnum á ný þegar liðið mætir Tottenham í undanúrslitum deildabikarsins annað kvöld.

Tuchel setti Lukaku út úr hópnum fyrir stórleikinn gegn Liverpool í úrvalsdeildinni á sunnudaginn vegna þess óróa sem skapaðist í kringum Belgann eftir að hann sagði í viðtali sem birtist um áramótin að hann vildi fara aftur til Inter Mílanó.

Þeir Tuchel og Lukaku hittust í gær og ræddu málin. „Hann baðst afsökunar og er aftur kominn í hópinn og æfir með liðinu í dag. Við ákváðum að gefa þessu máli sinn tíma. Fyrir mína parta skipti mestu máli að sjá að þetta var ekki ásetningur hjá honum. Hann gerði þetta ekki til þess að valda óróa rétt fyrir stórleik,“ sagði Tuchel á fréttamannafundi.

Fyrri leikur Chelsea og Tottenham í undanúrslitum bikarsins fer fram á Stamford Bridge annað kvöld en sá seinni á Tottenham Stadium í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert