Enska knattspyrnusambandið hefur lagt fram ákæru á hendur Arsenal vegna framkomu leikmanna liðsins í leiknum gegn Manchester City í úrvalsdeildinni á nýársdag.
Arsenal verður í framhaldinu væntanlega sektað fyrir að hafa ekki stjórn á leikmönnum sínum sem mótmæltu harkalega þegar miðvörðurinn Gabriel var rekinn af velli á 59. mínútu með sitt annað gula spjald í leiknum, fyrir brot.
Hann hafði fengið það fyrra fyrir að reyna að skemma vítapunktinn þegar City fékk vítaspyrnu skömmu áður og jafnaði metin. Leikmenn Arsenal mótmæltu einnig þeim vítaspyrnudómi harkalega en Stuart Attwell ákvað að dæma vítaspyrnu eftir að hafa skoðað atvikið á skjá.
Eftir leikinn, sem City vann 2:1 á marki í uppbótartíma, voru Albert Stuivenberg, aðstoðarstjóri Arsenal sem stýrði liðinu í leiknum, og markvörðurinn Aaron Ramsdale harðorðir í viðtölum þar sem þeir kölluðu báðir eftir meira samræmi í notkun dómara á hliðarlínuskjánum.