Tottenham ætlar að freista þess að krækja í Adama Traoré, spænska kantmanninn hjá Wolves, og gera hann að hægri bakverði.
Þetta segir íþróttavefmiðillinn The Athletic í umfjöllun um stöðu mála hjá Tottenham í dag. Antonio Conte, sem tók við liðinu seint á síðasta ári, vill fá tækifæri til að styrkja liðið en hann sagði eftir 2:0 ósigurinn gegn Chelsea í deildabikarnum í gærkvöld að leikurinn hefði sýnt hversu mikið bil væri á þessum tveimur liðum í dag.
The Athletic segir að Conte sé ekki ánægður með Emerson Royal í stöðu hægri bakvarðar og nú eigi að gera nýja tilraun til að fá Traoré til félagsins en Tottenham reyndi árangurslaust að kaupa hann af Wolves síðasta sumar. Félagið sé nú reiðubúið til að láta Matt Doherty fara til Úlfanna í staðinn sem hluta af kaupverðinu.
The Athletic bendir á að þegar Conte var knattspyrnustjóri Chelsea hafi hann gert kantmanninn Victor Moses að bakverði og það gæti vel hentað að gera slíkt hið sama með hinn fljóta og kraftmikla Traoré sem hefur leikið með Wolves frá 2018, ólst upp hjá Barcelona og hefur spilað átta landsleiki fyrir Spán.