Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, er með kórónuveiruna. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Guardiola, sem er fimmtugur, verður því fjarri góðu gamni á morgun þegar City heimsækir D-deildarlið Swindon Town í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.
Juanma Lillo, aðstoðarþjálfari City, er einnig með veiruna og Rodolfo Borrell, annar aðstoðarþjálfari Guardiola, mun því stýra liðinu á morgun í fjarveru þeirra Guardiola og Lillos.
Fyrr í dag bárust fréttir af því að Sean Dyche, stjóri Burnley, væri með veiruna en þeir Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, og Mikel Arteta, stjóri Arsenal, eru einnig smitaðir af veirunni.