Alls eru sautján leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United sagðir ósáttir með stöðu mála hjá félaginu. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.
Mikil sundrung ríkir í búningsklefanum eftir stjóratíð Ole Gunnars Solskjærs og er mórallinn hjá félaginu lélegur. Þá bárust fréttir af því í gær að leikmenn liðsins væri óánægðir með þjálfunaraðferðir Ralf Rangnicks, nýráðins stjóra liðsins.
Margir leikmenn eru sagðir vilja yfirgefa félagið en Rangnick er sagður mjög meðvitaður um stöðu leikmannanna eftir mikil fundarhöld með þeim eftir að hann tók við liðinu í nóvember á síðasta ári.
Sportsmail telur næsta víst að Anthony Martial muni fara til Sevilla í þessum mánuði og að þeir Jesse Lingard og Paul Pogba fari frá félaginu næsta sumar þegar samningar þeirra renna út.
Bæði Edinson Cavani og Juan Mata eru á förum næsta sumar og þá eru þeir Donny van de Beek, Dean Henderson og Eric Bailly allir ósáttir með lítinn spilatíma.
Þá eru Phil Jones, Nemanja Matic, Fred og Diogo Dalot á meðal leikmanna sem verða samningslausir sumarið 2023 en þeir vilja fá framtíð sína á hreint hjá félaginu.