Þjóðverjinn Antonio Rüdiger verður hæst launaði varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, takist Chelsea að halda honum í sínum röðum eftir þetta keppnistímabil.
Þetta segir Sky Sports í dag, samkvæmt sínum heimildum, en samningur Rüdigers rennur út eftir þetta tímabil og hann mátti hefja viðræður við önnur félög um áramót.
Þær viðræður voru fljótar í gang og samkvæmt fréttum Sky Sports og fleiri fjölmiðla hafa Real Madrid, Juventus, París SG, Bayern München og Barcelona öll haft samband við umboðsmenn Rüdigers með samning í huga.
Chelsea er sagt hafa mikinn hug á að halda þessum öfluga varnarmanni sem hefur spilað mest allra í liði Thomasar Tuchels í vetur. Það myndi hinsvegar koma verulega við pyngjuna hjá eigandanum, Roman Abramovich.
Rüdiger er 28 ára gamall og kom til Chelsea frá Roma fyrir 29 milljónir punda árið 2017. Hann hefur spilað 119 úrvalsdeildarleiki fyrir félagið, 166 leiki í öllum mótum, og á 49 landsleiki að baki fyrir Þýskaland.