Enska knattspyrnufélagið Newcastle gekk í morgun formlega frá kaupum á enska landsliðsbakverðinum Kieran Trippier frá Atlético Madrid fyrir 12 milljónir punda.
Hann samdi við félagið til hálfs þriðja árs með möguleika á framlengingu um eitt ár til viðbótar. Trippier er 31 árs og hefur leikið 35 landsleiki fyrir England en hann lék með Tottenham og Burnley áður en hann fór til Atlético Madrid árið 2019.
Trippier ólst upp hjá Manchester City frá níu ára aldri og var þar til 22 ára aldurs en fékk aldrei tækifæri með aðalliði félagsins og var lánaður til Barnsley og Burnley fyrstu ár ferilsins, áður en hann fór alfarinn til Burnley árið 2012. Þá lék hann um skeið undir stjórn Eddie Howe, núverandi knattspyrnustjóra Newcastle.
Trippier er fyrsti leikmaðurinn sem Newcastle kaupir eftir að nýir sádiarabískir eigendur gerðu félagið að því ríkasta í heimi seint á síðasta ári.