Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Derby County, segir að leikmenn félagsins eigi möguleika á að verða að goðsögnum í sögu þess ef þeir ná því takmarki að halda liðinu í ensku B-deildinni.
Á Englandi er nú fylgst með gengi Derby af vaxandi athygli. Félagið var talið í vonlausri stöðu strax í byrjun tímabils þegar 21 stig var dregið af því fyrir að brjóta fjárhagsreglur ensku deildakeppninnar, auk þess sem það fór í greiðslustöðvun og því var bannað að kaupa leikmenn. Eigandi félagsins fór þá fram úr sér í ákafa sínum við að reyna að koma félaginu upp í úrvalsdeildina.
Rooney náði að setja saman lið úr þeim litla hópi sem eftir stóð hjá Derby eftir síðasta tímabil ásamt því að krækja í nokkra samningslausa leikmenn, svo sem gamla varnarjaxlinn Phil Jagielka og vandræðagripinn Ravel Morrison sem þótti mikið efni á sínum tíma en hefur hvergi náð sér á strik.
Undanfarnar vikur hefur Derby verið á mikilli sigurbraut en liðið fékk tíu stig úr fjórum leikjum um jól og áramót og vann þar m.a. tvö af efstu liðunum, WBA og Stoke.
Nú er Derby komið með 11 stig, sem væru annars 32 ef til refsingarinnar hefði ekki komið. Liðið er þremur stigum frá því að komast úr neðsta sæti og ellefu stigum frá fallsæti, og allt í einu virðist ekki útilokað að það nái að halda sér í deildinni.
„Þetta er búið að vera erfitt ár en ef þú setur undir þig höfuðið og leggur hart að þér þá skína af þér ástríðan og orkan. Þannig hefur þetta verið hjá öllum í félaginu í vetur, allt frá leikmönnunum til starfsliðsins í mötuneytinu. Viðhorf allra hefur verið frábært og leikmennirnir okkar í dag eiga möguleika á að komast í hóp goðsagna hjá félaginu," sagði Rooney í viðtali á heimasíðu Derby í dag.
Hann kvaðst vonast til þess að geta styrkt leikmannahópinn núna í janúar enda þótt félagið megi ennþá ekki kaupa leikmenn.
„Ég hef átt jákvæðar viðræður við rekstraraðila félagsins og vonandi verður eitthvað tilkynnt formlega innan tíðar en ég hef fengið svör við því hvað ég má gera. Ég vinn að því að styrkja hópinn og við höfum rætt um að framlengja samninga við leikmenn," sagði Wayne Rooney.