Franski knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy er laus gegn tryggingu en hann hefur undanfarna mánuði verið í varðhaldi enda hafa kærur gegn honum nánast komið á færibandi.
Fimm konur hafa kært Mendy fyrir nauðgun og kynferðisofbeldi eins og fram hefur komið og hefur saksóknari gefið út ákærur í framhaldinu.
Mendy er gert að dvelja á heimili sínu í Bretlandi. Hann er í ferðabanni og hefur því skilað inn vegabréfinu. Auk þess er honum óheimilt að hafa samband við fólk sem tengist málunum.
Til stóð að Mendy kæmi fyrir rétt í þessum mánuði en þar sem umfang málanna hefur vaxið þá er ekki víst að það verði fyrr en í júní.
Mendy er enginn meðalmaður í knattspyrnunni heldur hefur hann notið velgengni. Hefur orðið enskur meistari með Manchester City og var í leikmannahópi Frakka sem urðu heimsmeistarar.