Það er fátt sem bendir til þess að Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, muni styrkja leikmannahóp sinn í janúarglugganum. Það er talkSport sem greinir frá þessu.
Rangnick tók við stjórnartaumunum hjá United í nóvember þegar Ole Gunnar Solskjær var rekinn frá félaginu.
Þýski stjórinn fór ágætlega af stað með liðið en það hefur hallað undan fæti í undanförnum leikjum og hefur liðið fengið 4 stig af 9 mögulegum í síðustu þremur leikjum sínum í úrvalsdeildinni.
Þá bárust fréttir af sundrung innan leikmannahópsins í vikunni og að margir leikmenn liðsins hefðu litla trú á þjálfunaraðferðum Rangnicks.
Anthony Martial er að öllum líkindum á förum frá félaginu til Sevilla á Spáni og þá hafa þeir Donny van de Beek, Paul Pogba og Jesse Lingard verið orðaðir við brottför í janúar.
United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti, þegar deildin er hálfnuð.