Verða að taka á málum af fagmennsku

Ralf Rangnick fylgist með sínum mönnum í leik gegn Burnley.
Ralf Rangnick fylgist með sínum mönnum í leik gegn Burnley. AFP

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að þeir leikmenn í hópi félagsins sem séu óánægðir með sína stöðu eigi að taka á því af fagmennsku.

Enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um meinta óánægju í röðum leikmanna Manchester United undanfarna daga og sagt hefur verið að allt frá ellefu og upp í sautján leikmenn í hópnum hafi hug á að komast burt frá félaginu.

Einn þeirra, miðjumaðurinn Fred, sagði hinsvegar á Twitter í dag að fólk ætti ekki að láta falsfréttir hafa áhrif á sig. Hann hefði aldrei sýnt af sér neina óánægju eða gefið til kynna að hann vildi yfirgefa félagið.

Rangnick ræddi málin á fréttamannafundi í dag og sagði að hann reyndi að tala við alla leikmenn sína með tveggja til þriggja vikna millibili. Það sé hinsvegar ekki hægt eftir hvern leik og hann skoraði á liðsmenn sína að vera faglegir í viðbrögðum.

„Við erum með stóran leikmannahóp. Þegar hópurinn er svona stór og aðeins tíu útispilarar geta hafið leik og þrír komið inn á sem varamenn, þá er alltaf stór hópur leikmanna sem kemur ekki við sögu og er jafnvel utan hóps. Þessir leikmenn eru ósáttir við þá stöðu. Það er augljóst. Það er á hreinu," sagði Rangnick.

„Við erum líka með leikmenn sem eru að ljúka sínum samningum í sumar og kannski eru einn eða tveir samningsbundnir sem vilja komast burt. Þetta snýst allt um að leikmenn taki á þeirri stöðu af fagmennsku. Ég get ekki séð annað en að þeir hafi að mestu leyti gert það. Ef mér finnst annað, þá mun ég ræða það við viðkomandi leikmenn," sagði Þjóðverjinn sem tók við liðinu í lok nóvember eftir að Ole Gunnari Solskjær var sagt upp störfum. Hann á að stýra liðinu út tímabilið og fara síðan í ráðgjafahlutverk hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert