B-deildarliðið Nottingham Forest gerði sér lítið fyrir og sló stórliðið Arsenal úr leik er liðin mættust í Nottingham í 3. umferð enska bikarsins í fótbolta í kvöld. Úrslitin eru mjög óvænt en Forest er í 9. sæti B-deildarinnar og Arsenal í 4. sæti úrvalsdeildarinnar.
Urðu lokatölur 1:0 en varamaðurinn og framherjinn Lewis Grabban skoraði sigurmarkið á 83. mínútu. Forest mætir grönnum sínum og ríkjandi bikarmeisturum Leicester í næstu umferð.
Arsenal var töluvert meira með boltann, eða 67 prósent, en illa gekk að brjóta niður þétta vörn heimamanna. Úrvalsdeildarliðið átti alls tíu skot í leiknum en ekkert þeirra rataði á markið. Forest átti sjö og fóru þrjú þeirra á markið.