Bruno Fernandes, sóknartengiliður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segir ekkert til í þeim sögusögnum að hann vilji komast burt frá félaginu og ganga í raðir Barcelona.
Fernandes hefur verið á mála hjá United í tvö ár og verið algjör lykilmaður þann tíma.
Hann hefur þó aðeins skorað eitt mark í síðustu 14 leikjum fyrir liðið í öllum keppnum og greindi portúgalski íþróttamiðilinn Sport TV frá því á dögunum að Fernandes væri ósáttur hjá Rauðu djöflunum og Barcelona hefði verið boðið að kaupa hann.
Fernandes skrifaði athugasemd við frétt Sport TV á instagramsíðu miðilsins:
„Og ég sem stóð í þeirri trú að nýja árið væri bara nýlega gengið í garð, en það er strax kominn 1. apríl! Eða er þetta enn eitt dæmið um lélega fréttamennsku?“
Hann er því síður en svo á förum frá United.