Hollenski knattspyrnumaðurinn Anwar El Ghazi er kominn til Everton að láni frá Aston Villa en bæði lið leika í ensku úrvalsdeildinni.
El Ghazi, sem er 26 ára, verður hjá Everton út leiktíðina. Kom hann til Aston Villa árið 2018 og hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild, þar sem liðið hefur verið síðan. Skoraði Hollendingurinn 15 mörk í 65 deildaleikjum með Villa.
Everton getur keypt El Ghazi eftir leiktíðina á tíu milljónir punda. Bakvörðurinn Lucas Digne fór í hina áttina fyrr í vikunni en hann er nú orðinn leikmaður Aston Villa, eftir að hafa verið í herbúðum Everton frá árinu 2018.