Sol Campbell átti langan og farsælan feril á hæsta getustigi knattspyrnunnar með Tottenham Hotspur, Arsenal og enska landsliðinu. Það var talsvert öðruvísu um að litast þegar hann tók við sínu fyrsta starfi sem knattspyrnustjóri, eins og hann rifjar upp í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
– Þú fékkst þitt fyrsta tækifæri sem knattspyrnustjóri þegar Macclesfield Town réð þig í nóvember 2018. Á þeim tíma var liðið á botni D-deildarinnar með 10 stig úr 19 leikjum og sjö stigum frá öruggu sæti. Hvaða heimspeki flaggaðirðu til að byrja með þar?
„Ég reyndi að láta liðið leika alvörufótbolta enda þótt pressan væri mikil. Mikilvægt var að vinna í sjálfstraustinu, þar sem menn voru orðnir vanir að tapa. Vekja þurfti vonina á ný, sem ég gerði með samtölum og öðru slíku. Ég tjáði þeim að eina leiðin til að halda sér í deildinni væri að leika frá aftasta manni og vera öruggir með boltann. Það var líka heilmikill fengur í því að fá marga leikmenn að láni um jólaleytið. Sumir þeirra reyndust okkur mjög vel og það dugði til að snúa taflinu og dínamíkinni við.“
– Gengi liðsins batnaði en þá tók annað vandamál við; hvorki þú né leikmennirnir fengu greidd laun um tíma. Hvernig er að vinna við þær aðstæður?
„Ég þurfti að glíma við alls konar vandamál, fyrir utan að koma liði út á völl. Einu sinni neitaði leikmaður að spila vegna vangoldinna launa. Þannig að ég varð að breyta öllu liðinu þremur tímum fyrir leik – en við náðum samt úrslitum.“
– Svipuð staða kom upp á lokadegi mótsins, með allt liðið, þegar þið þurftuð eitt stig til að sleppa við fall. Hvernig tókst þér að fá þá til að leika þann leik, þar sem þú fékkst ekki greitt heldur?
„Ég var bara hreinskilinn við þá. Sagðist vita að þeir hefðu ekki fengið greitt og væru að hugsa um að fara í verkfall en bað þá að horfa frekar á stóru myndina. Við yrðum að hanga uppi. Þetta var súrrealískt.“
Hann hlær.
„En mér tókst að senda þá út á völl og eftir að hafa lent 1:0 undir jöfnuðum við og héldum sæti okkar! En það er engin draumastaða að þurfa að hvetja leikmenn sína til þess eins að hefja leik. Þetta var mikill léttir og eiginkona mín hreinlega brast í grát undan álaginu enda var þetta fyrsta starfið mitt. Allir héldu að við værum búnir að vera – meira að segja stjórnarformaður félagsins – en við snerum þessu við.“
– Eigi að síður hættir þú hjá félaginu í upphafi næsta tímabils. Merkilegt nokk, eftir 3:0-sigur á Leyton Orient. Hvernig kom það til?
„Ég hafði ekki fengið greitt í sex mánuði og gat ekki haldið svona áfram. Hefðir þú gert það? Þetta var alveg galið, eins og verið væri að hafa mann að fífli.“
Ítarlega er rætt við Sol Campbell í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Tottenham og Arsenal mætast einmitt í úrvalsdeildinni á morgun, sunnudag.