Stjórn enska knattspyrnufélagsins Everton ræðir framtíð spænska knattspyrnustjórans Rafael Benítez á fundi í kvöld.
Everton hefur aðeins unnið einn deildarleik síðan í september og er liðið í 16. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið tapaði fyrir botnliði Norwich á útivelli í dag, 2:1.
Bláa liðið í Liverpool hefur tapað níu af síðustu þrettán leikjum og þar á meðal eru 1:4-tap gegn Liverpool og 2:5-tap fyrir Watford.
Benítez gerði garðinn frægan sem stjóri Liverpool á árum áður og hefur honum gengið illa að komast í mjúkinn hjá stuðningsmönnum erkifjandanna í Everton.