Newcastle og Watford skildu jöfn, 1:1, í fallbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Allan Saint-Maximin Newcastle yfir á 49. mínútu eftir huggulegan einleik en Joao Pedro jafnaði á 88. mínútu og þar við sat.
Norwich fór úr botnsætinu með 2:1-sigri á Everton á heimavelli. Michael Keane kom Norwich yfir með sjálfsmarki á 16. mínútu og Adam Idah tvöfaldaði forskotið á 18. mínútu. Richarlison minnkaði muninn á 60. mínútu en Everton tókst ekki að jafna, þrátt fyrir mikla pressu undir lokin.
Burnley er fallið niður í neðsta sæti þar sem liðið er með ellefu stig en með þrjá til fjóra leiki til góða á liðin fyrir ofan. Newcastle er í 19. sæti með 12 stig, Norwich í 18. sæti með 13 og Watford í 17. sæti með 14 stig. Everton og Leeds koma þar á eftir með 19 stig.
Þá vann Wolves 3:1-heimasigur á Southampton. Raúl Jiménez kom Wolves yfir í fyrri hálfleik úr víti og Conor Coady bætti við marki á 59. mínútu. James Ward-Prowse minnkaði muninn með glæsilegu marki úr aukaspyrnu á 84. mínútu en Adama Traoré gulltryggði 3:1-sigur í uppbótartíma.