Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Everton hafa ákveðið að reka Rafa Benítez frá starfi sem knattspyrnustjóri liðsins eftir afar dapurt gengi síðustu mánuði.
Pete O‘Rourke, blaðamaður Sky Sports, greindi frá að Everton tilkynni brottreksturinn í síðasta lagi á mánudag.
Everton hefur aðeins unnið einn deildarleik síðan í september og er liðið í 16. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið tapaði fyrir botnliði Norwich á útivelli í dag, 2:1.
Wayne Rooney, fyrrverandi leikmaður Everton, hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá liðinu en hann hefur gert afar góða hluti með Derby í B-deildinni, þrátt fyrir gríðarlega erfiða stöðu félagsins.