Enska knattspyrnufélagið Everton staðfesti í dag brottrekstur Spánverjans Rafael Benítez sem knattspyrnustjóra félagsins eftir sex mánuði í starfi.
Everton hefur aðeins unnið einn deildarleik síðan í september og er liðið í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið tapaði fyrir Norwich á útivelli í gær, 1:2, en Norwich var í botnsæti deildarinnar fyrir leikinn.
Wayne Rooney, fyrrverandi leikmaður Everton, hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá liðinu en hann hefur gert afar góða hluti með Derby í B-deildinni, þrátt fyrir gríðarlega erfiða stöðu félagsins.