Leeds vann sterkan 3:2-útisigur á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Jack Harrison, kantmaður Leeds, skoraði þrennu.
Leeds byrjaði af miklum krafti og Jack Harrison skoraði fyrsta markið á 10. mínútu eftir þunga sókn. Jarrod Bowen jafnaði á 34. mínútu með skalla eftir horn en Harrison var aftur á ferðinni aðeins þremur mínútum síðar og var staðan í hálfleik 2:1.
West Ham jafnaði aftur á 52. mínútu þegar Pablo Fornals skoraði eftir undirbúning frá Michail Antonio en Harrison var ekki hættur því hann skoraði sigurmarkið á 60. mínútu eftir fallega sendingu frá Raphinha.
Skömmu síðar átti Raphinha góða sendingu á Mateusz Klich og Pólverjinn skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Eftir það var West Ham sterkari aðilinn og Bowen fékk dauðafæri í uppbótartíma en hann setti boltann yfir af stuttu færi og Leeds hélt út.
West Ham er í fjórða sæti með 37 stig og Leeds í 15. sæti með 22 stig.