Enska knattspyrnufélagið Brentford hefur boðið danska sóknartengiliðnum Christian Eriksen sex mánaða samning með möguleika á framlengingu til eins árs til viðbótar.
The Athletic greinir frá.
Eriksen hefur ekkert spilað frá því að hann fór í hjartastopp á EM síðastliðið sumar og leitar sér nú að nýju félagi .
Hann fékk samningi sínum hjá Ítalíumeisturum Inter rift í síðasta mánuði þar sem reglur ítalska knattspyrnusambandsins gerðu honum ekki lengur kleift að spila þar í landi eftir að bjargráður var græddur í hann vegna hjartastoppsins.
Brentford er sannkallað Danalið þar sem átta leikmenn frá Danmörku eru á mála hjá aðalliðinu og fleiri í unglingaliðum þess, ásamt því að Thomas Frank knattspyrnustjóri liðsins er einnig Dani.
Gangi Eriksen, sem er 29 ára gamall, til liðs við Brentford yrði hann því níundi aðalliðsleikmaðurinn frá Danmörku á mála hjá félaginu.