Lögreglan í Manchesterborg bíður nú ákvörðunar dómstóla í máli knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar. Þetta staðfesti hún í samtali við Fréttablaðið í dag.
Um síðustu helgi staðfesti lögreglan í Manchester í samtali við The Sun að Gylfi yrði laus gegn tryggingu til miðvikudagsins 19. janúar og hefur það fyrirkomulag verið framlengt í þrígang síðan hann var handtekinn á heimili sínu á Bretlandseyjum um miðjan júlí á síðasta ári, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.
„Það er ekkert að frétta okkar megin þar sem við erum enn að bíða eftir upplýsingum sjálf,“ sagði Kate King, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Manchester, í samtali við Fréttablaðið.
„Við erum enn að bíða eftir dómstólnum. Við höfum ekki enn heyrt neitt frá þeim,“ bætti hún við í samtali við Fréttablaðið.
Það ætti að skýrast í dag hvort Gylfi Þór verði ákærður fyrir brot sín eða þá að málið verði látið niður falla.
Gylfi sakaður um brot gegn barni
Leikmaðurinn sjálfur hefur ekkert tjáð sig síðan hann var handtekinn í júlí en hann gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist, verði hann fundinn sekur.
Samningur hans við Everton rennur út í sumar og fátt sem bendir til þess að hann verði áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð en hann hefur ekkert leikið með liðinu á yfirstandandi tímabili.
Gylfi á að baki 318 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og Everton þar sem hann hefur skorað 67 mörk. Þá á hann að baki 78 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað 25 mörk.