Manchester United vann öruggan 3:1-útisigur á Brentford er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Öll mörkin komu í seinni hálfleik.
Fyrri hálfleikur var með rólegra móti. United var mikið með boltann en Brentford skapaði sér hættulegri færi en David De Gea stóð vaktina vel í marki United.
Gestirnir frá Manchester voru töluvert betri í seinni hálfleik og Svíinn ungi Anthony Elanga skoraði fyrsta markið á 55. mínútu með skalla af stuttu færi eftir að hafa tekið skemmtilega á móti boltanum.
Sjö mínútum síðar tvöfaldaði Mason Greenwood forskotið er hann og Bruno Fernandes sluppu einir í gegn og Fernandes sendi á Greenwood sem skoraði auðvelt mark. Varamaðurinn Marcus Rashford, sem kom inn á í staðinn fyrir Greenwood, bætti svo við þriðja markinu á 78. mínútu er hann slapp einn í gegn.
Ivan Toney minnkaði muninn er hann skoraði af stuttu færi eftir langt innkast en nær komust heimamenn ekki og öruggur sigur United staðreynd.
United er í sjöunda sæti með 35 stig og Brentford í 14. sæti með 23 stig.