Jón Daði Böðvarsson er genginn til liðs við enska knattspyrnufélagið Bolton á frjálsri sölu. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.
Jón Daði, sem er 29 ára gamall, skrifaði undir átján mánaða samning við enska C-deildarfélagið en hann rifti samningi sínum við Millwall til þess að geta gengið til liðs við Bolton.
Sóknarmaðurinn hefur verið í herbúðum Millwall frá árinu 2019 en ekkert leikið með liðinu í B-deildinni á yfirstandandi tímabili og aðeins komið við sögu í einum leik í deildabikarnum. Bolton er með 29 stig í sautjánda sæti C-deildarinnar.
Jón Daði hefur leikið á Englandi frá árinu 2016, fyrst með Wolves, síðar Reading og loks Millwall en hann á að baki 62 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.
Jón Daði er áttundi Íslendingurinn sem semur við Bolton en þeir Guðni Bergsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Arnar Gunnlaugsson, Heiðar Helguson, Birkir Kristinsson, Ólafur Páll Snorrason og Grétar Rafn Steinsson hafa allir verið á mála hjá félaginu. Þeir Birkir og Ólafur léku þó aldrei með aðalliði Bolton.