Aston Villa gerði góða ferð til Liverpool þar sem liðið vann heimamenn í Everton með minnsta mun, 1:0, þegar þau öttu kappi í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Emiliano Buendía kom Villa í forystu í uppbótartíma fyrri hálfleiks með góðu skallamarki eftir hornspyrnu Lucas Digne frá hægri.
Þegar leikmenn Villa fögnuðu markinu var flösku og kveikjara kastað í höfuð Digne, sem er nýgenginn í raðir Villa frá Everton, og Matty Cash.
Þrátt fyrir talsvert mikla pressu af hálfu Everton í síðari hálfleik tókst lærisveinum Stevens Gerrards í Villa að halda út og reyndist mark Buendía vera sigurmark leiksins.
Þetta var fyrsti leikur Everton undir stjórn bráðabirgðastjórans Duncans Fergusons, þ.e. eftir að hann tók við sem slíkur í vikunni, í annað skipti á þjálfaraferli hans, en Rafael Benítez var látinn taka pokann sinn um síðustu helgi.
Villa fer með sigrinum upp í efri hluta deildarinnar, þar sem liðið er nú með 26 stig eftir 21 leik.
Everton er áfram í 16. sæti með 19 stig, fimm stigum frá fallsæti.