Marcus Rashford skoraði sigurmark Manchester United er liðið vann dramatískan 1:0-heimasigur á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Markið kom á þriðju mínútu uppbótartímans og var leikurinn flautaður af strax eftir miðjuna í kjölfarið.
Leikmenn Manchester United voru meira með boltann í leiknum en náðu ekki að skapa sér mörg færi. Það var mikið um langskot en þau voru alls ekki að virka hjá Manchester United í dag. West Ham átti sína spretti en besta færi West Ham í leiknum fékk Tomas Soucek en hann skallaði boltann framhjá á 87. mínútu eftir hornspyrnu.
Þessi sigur Manchester United var gríðarlega mikilvægur í baráttuni um fjórða sætið í deildinni en liðið er núna komið í fjórða sætið með 38 stig en West Ham er í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig. Manchester United var síðast í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar um miðjan október.