Arsenal fór illa að ráði sínu þegar það fékk botnlið Burnley í heimsókn á Emirates-völlinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Danny Welbeck tryggði þá Brighton & Hove Albion jafntefli gegn Leicester City með marki seint í leiknum.
Arsenal auðnaðist ekki að skora þrátt fyrir að hafa ráðið lögum og lofum gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni í Burnley.
Niðurstaðan markalaust jafntefli, sem eru flott úrslit fyrir Burnley en afleit fyrir Skytturnar í baráttu liðsins um Meistaradeildarsæti.
Jóhann Berg kom inn á sem varamaður á 83. mínútu hjá Burnley.
Arsenal er eftir jafnteflið í 6. sæti deildarinnar með 36 stig eftir 21 leik, tveimur stigum á eftir Manchester United, auk þess sem Arsenal á leik til góða.
Burnley er áfram á botni deildarinnar með aðeins 12 stig eftir 18 leiki en á fjóra leiki til góða á Norwich City sem er fjórum stigum fyrir ofan í síðasta örugga sætinu, 17. sæti.
Patson Daka kom heimamönnum í Leicester á bragðið strax í upphafi síðari hálfleiks þegar hann fylgdi eftir skoti Harvey Barnes sem Robert Sánchez hafði varið.
Á 82. mínútu jafnaði Welbeck hins vegar metin með góðum skalla eftir fyrirgjöf Neal Maupay.
Þar við sat og 1:1 jafntefli reyndust lokatölur.
Leicester og Brighton sigla áfram lygnan sjó um miðja deild. Leicester er í 10. sæti með 26 stig og Brighton er í sætinu fyrir ofan með 30 stig.