Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu munu funda á morgun þar sem ræddar verða mögulegar reglubreytingar sem snúa að frestun leikja í deildinni.
Það er BBC sem greinir frá þessu. Hingað til hafa félög í deildinni getað sótt um að leikjum þeirra sé frestað meðal annars vegna kórónuveirusmita, meiðsla og landsliðsverkefna.
Alls hefur 22 leikjum í deildinni verið frestað á tímabilinu og hafa forráðamenn deildarinnar fengið sinn skerf af gagnrýni vegna þessa.
Í desember á síðasta ári tilkynntu forráðamenn deildarinnar að félögunum væri gert að mæta til leiks ef þau væri með þrettán heila leikmenn innanborðs ásamt markverði og var þetta gert til að bregðast við auknum fjölda kórónuveirusmita á Englandi.
Það bendir allt til þess að ráðist verði í tilslakanir vegna kórónuveirufaraldursins á Englandi á næstu dögum og því telja forráðamenn deildarinnar tíma til kominn að endurskoða regluverkið um frestun leikja.
Enska úrvalsdeildin er nú komin í vetrarfrí en keppni hefst að nýju hinn 8. febrúar.