Sóknarmenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea eru sagðir ósáttir með þýska stjórann Thomas Tuchel.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu. Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af því að Romelu Lukaku væri óánægður í herbúðum félgsins en framherjinn gagnrýndi leikaðferðir þýska stjórans í viðtali við Sky Sports.
Lukaku var tekinn út úr hóp eftir viðtalið og baðst síðar afsökunar á ummælum sínum en hann hefur ekki fundið taktinn með liðinu eftir komu frá Inter Mílanó síðasta sumar fyrir 100 milljónir punda.
Í frétt The Athletic kemur meðal annars fram að sóknarmenn liðsins séu ósáttir með skammir frá stjóranum á hliðarlínunni í hvert skipti sem þeir gera mistök.
Þá væru leikmenn liðsins mjög hræddir við að gera mistök á vellinum, af ótta við viðbrögð Tuchels, og að þeir ættu því erfitt með að sýna frumkvæði í sínum leik vegna þessa.
Christian Pulisic, Callum Hudson-Odoi, Hakim Ziyech og Timo Werner eru allt leikmenn sem hafa ekki fundið taktinn á tímabilinu og þá hefur Pulisic og Hudson-Odoi verið spilað út úr stöðu á leiktíðinni.