Kólumbíumaðurinn Luis Díaz, fór í læknisskoðun hjá enska knattspyrnuliðinu Liverpool í kvöld.
Liverpool sendi teymi til Argentínu þar sem Díaz er staddur í landsliðsverkefni. Félagið hefur þegar fengið um 50 milljón punda tilboð samþykkt af Porto, sem Díaz leikur fyrir.
Ef allt gengur eftir verður Díaz orðinn leikmaður enska liðsins fyrir lok félagsskiptagluggans á mánudag og ætti að geta hitt nýju liðsfélaga sína eftir landsleikjahléið og vetrarfríið sem er í gangi í ensku úrvalsdeildinni.
Staðarblaðið Liverpool Echo greinir frá því að hinn 25 ára gamli Díaz hafi verið helsta skotmark Jürgen Klopp, stjóra Liverpool í glugganum en forráðamönnum Liverpool fannst 67 milljón punda klásúla Díaz helst til of há. Eftir að Porto hins vegar mistókst að komast upp úr riðlinum í Meistaradeildinni hafi þeir þurft auka tekjur og ákveðið að lækka verðið á Díaz til að geta selt hann. Porto var einmitt með Liverpool í riðli og er talað um að Klopp hafi heillast að leikmanninum í leikjum liðanna.