Enska knattspyrnufélagið Leeds United hefur hafnað tilboðum frá West Ham í tvo af lykilmönnum liðsins.
The Guardian segir að David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, sé staðráðinn í að fá Kalvin Phillips, miðjumann Leeds og enska landsliðsins, í sínar raðir. Leeds sé þegar búið að hafna 50 milljón punda boði West Ham í hann og Moyes sé reiðubúinn að bíða með frekari aðgerðir til sumars.
Brasilíski kantmaðurinn Raphinha átti stórleik með Leeds gegn West Ham fyrr í þessum mánuði og Moyes hefur mikið reynt til að krækja í hann eftir það. Leeds mun hafa, samkvæmt The Guardian, hafnað svipuðu tilboði í hann og Phillips og Marcelo Bielsa knattspyrnustjóri Leeds sé harður á því við sína menn að halda Brasilíumanninum út tímabilið.