Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur gengið frá kaupum á Luis Díaz frá Porto í Portúgal. Kaupverðið er um 37 milljónir punda og skrifar Díaz undir fimm og hálfs árs samning við enska félagið.
Díaz, sem er landliðsmaður Kólumbíu, var eftirsóttur af fleiri félögum en Tottenham hafði einnig lagt fram tilboð í leikmanninn. Díaz vildi hinsvegar frekar fara til Liverpool.
Liverpool sendi teymi til Argentínu, þar sem hann er í landsliðsferðalagi, til að ganga frá samningnum. Þar gekkst Díaz undir læknisskoðun sem hann stóðst.
Díaz, sem er 25 ára, hefur leikið 77 deildarleiki með Porto og skorað í þeim 26 mörk. Þá hefur hann skorað sjö mörk í 32 leikjum með kólumbíska landsliðinu.