Enska knattspyrnuliðið Liverpool er að kaupa hinn 19 ára gamla Fabio Carvalho frá B-deildar liðinu Fulham. Sky Sports og Liverpool Echo greina frá.
Carvalho, sem spilar stöðu kantmanns og framliggjandi miðjumanns, á einungis sex mánuði eftir af samningi sínum við Fulham og er talið að Liverpool vilji nýta sér það og fá hann ódýrt.
Leikmaðurinn hefur vakið mikla athygli á tímabilinu en hann hefur skorað sjö mörk í 16 leikjum í ensku B-deildinni. Hann er fæddur í Portúgal en á leiki fyrir yngri landslið Englands.
Þetta yrði annar leikmaðurinn sem Liverpool fengi til sín í mánuðinum en fyrr í dag var Kólumbíumaðurinn Luis Díaz staðfestur frá Porto.