„Við fréttum fyrst af þessu klukkan 6 í morgun. Þetta er hræðilegt. Maður er enn þá að jafna sig,“ sagði faðir Harriet Robson í samtali við Daily Mail í dag.
Mynd- og hljóðefni af því sem virðist vera heimilisofbeldi knattspyrnumannsins Mason Greenwood birtist á samfélagsmiðlum Harriet í dag. Samkvæmt föður hennar vildi hún ekki dreifa efninu, en utanaðkomandi aðilar komust yfir efnið í símanum hennar og dreifðu því.
„Sem faðir, þá viltu ekki að þessir hlutir séu að gerast við dóttur þína. Lögreglan hefur tekið skýrslu af henni. Hún sagði okkur að síminn hennar hefði verið hakkaður og við báðum hana um að taka efnið niður, sem hún gerði en það var of seint.
Hún er í rusli því hún vildi ekki deila þessu. Við höfum þekkt Mason lengi og hann hefur verið partur af fjölskyldunni í tvö eða þrjú ár. Sambandið hefur ekki verið gott síðustu mánuði og hún er niðurbrotin. Þau voru mjög ástfangin og höfðu verið lengi saman, sagði hann.