Derby County náði í ótrúlegt 2:2 jafntefli gegn Birmingham í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag.
Birmingham komst yfir snemma leiks þegar Lyle Taylor skoraði eftir undirbúning Onel Hernández. Scott Hogan tvöfaldaði svo forystuna þegar síðari hálfleikur var ekki nema tíu mínútna gamall og leit allt út fyrir að Birmingham væri að vinna þægilegan útisigur.
Lærisveinar Wayne Rooney gáfust þó ekki upp. Luke Plange minnkaði muninn á 87. mínútu og á fimmtu mínútu uppbótartíma jafnaði Krystian Bielik metin fyrir Derby með glæsilegri hjólhestaspyrnu. Hann kom inn á í sínum fyrsta leik í heilt ár eftir að hafa slitið krossband í hné.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Derby nær í stig eftir að hafa verið 0:2 undir rétt fyrir leikslok.
Mikilvægt stig fyrir Derby í fallbaráttunni staðreynd en liðið er einungis sjö stigum frá öruggu sæti, þrátt fyrir að 21 stig hafi verið dregin af því vegna fjárhagsvandræða.
Metaðsókn var á leikinn í B-deildinni á Pride Park í dag en uppselt var og áhorfendur rúmlega 32 þúsund sem er það mesta í deildinni í heild í vetur. Mörg þúsund manns fóru í göngu um Derbyborg fyrir leikinn til að sýna liðinu stuðning í erfiðleikum þess en félagið gæti farið í gjaldþrot ef ekki finnst nýr eigandi á næstu fjórum vikum. Skuldir þess nema 60 milljónum punda sem er mesta skuldastaða sem félag í þessari deild hefur staðið frammi fyrir.