Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur komist að samkomulagi við Juventus um að sænski landsliðsmaðurinn Dejan Kulusevski leiki með Lundúnafélaginu út tímabilið að láni. Tottenham er með forkaupsrétt á Kulusevski eftir tímabilið.
Kulusevski fer í læknisskoðun hjá Tottenham í dag og verður fyrsti leikmaðurinn sem félagið fær í félagaskiptaglugganum.
Sænski leikmaðurinn hefur leikið 27 leiki með Juventus á leiktíðinni og skorað tvö mörk. Hann hefur hinsvegar aðeins sjö sinnum verið í byrjunarliði.
Juventus greiddi Atalanta 45 milljónir evra fyrir Kulusevski í janúar árið 2020 en hann hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá ítalska stórliðinu. Í 20 landsleikjum með Svíum hefur Kulusevski skorað eitt mark.