Pierre-Emerick Aubameyang er orðinn leikmaður Barcelona sem fær hann án greiðslu frá Arsenal en þetta var upplýst rétt í þessu.
Fyrr í dag virtust félagaskipti Gabonmannsins vera úr sögunni en hann kom til Barcelona á miðjum degi og var þá tilkynnt að félögin hefðu ekki náð saman um lánssamning þar sem strandaði á greiðslu launa leikmannsins.
Hann gekkst hinsvegar undir læknisskoðun í kvöld og félögin náðu að ganga frá málum áður en lokað var fyrir skipti bæði á Englandi og Spáni klukkan 23.
Þar með er fjögurra ára dvöl Aubameyangs hjá Arsenal lokið en hann var fyrirliði liðsins um skeið þar til hann var settur af í því embætti í desember. Hann kom til félagsins frá Dortmund árið 2018 fyrir 56 milljónir punda og skoraði 68 mörk í 128 úrvalsdeildarleikjum.
Aubameyang verður formlega kynntur til leiks hjá Barcelona í fyrramálið en samkvæmt spænskum miðlum semur hann við félagið til átján mánaða.