City keypti argentínskan framherja

Julián Álvarez fagnar marki fyrir River Plate.
Julián Álvarez fagnar marki fyrir River Plate. AFP

Manchester City, ensku meistararnir í knattspyrnu, tilkynntu í dag að gengið hefði verið frá kaupum á argentínska sóknarmanninum Julián Álvarez frá River Plate fyrir 14 milljónir punda og samið  við hann til hálfs sjötta árs.

Álvarez er einmitt 22 ára gamall í dag en hann hefur verið í röðum River Plate frá sextán ára aldri. Hann er kominn í argentínska landsliðið og á sex landsleiki að baki.

Hann verður lánaður aftur til River Plate og verður þar fram á sumar, að minnsta kosti, en River Plate vonast til að geta haldið honum í sínum röðum út þetta ár, eða þar til tímabilinu lýkur í Argentínu.

Álvarez skoraði 20 mörk í 35 leikjum fyrir River Plate í deildakeppninni á árinu þar sem hann varð argentínskur meistari með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert