Everton náði að ganga frá félagaskiptum fyrir Dele Alli frá Tottenham á síðustu stundu áður félagaskiptaglugganum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var lokað klukkan 23 í kvöld.
Þar með er þrautagöngu Alli hjá Tottenham lokið en undanfarin tvö ár hefur hann mest lítið spilað með liðinu eftir að hafa verið í stóru hlutverki hjá því í fimm ár þar á undan og verið orðinn fastamaður í enska landsliðinu.
Alli er 25 ára miðjumaður og á að baki 181 úrvalsdeildarleik með Tottenham þar sem hann skoraði 51 mark og þá skoraði hann þrjú mörk í 37 leikjum með enska landsliðinu á árunum 2015 til 2019. Hann samdi við Everton til sumarsins 2024.