Enska knattspyrnufélagið Everton staðfesti rétt í þessu að Frank Lampard hefði verið ráðinn knattspyrnustjóri félagsins til sumarsins 2024, eða til hálfs þriðja árs.
„Það er mikill heiður fyrir mig að vera fulltrúi og stjórnandi hjá félagi af þeirri stærðargráðu sem Everton er og ég bíð afar spenntur eftir því að geta byrjað," sagði Lampard á vef Everton.
Lampard er 43 ára gamall og eftir að hann lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril með West Ham, Chelsea, Manchester City og New York City fyrir tæpum sex árum hefur han nverið knattspyrnustjóri Derby og Chelsea. Honum var sagt upp hjá Chelsea í janúar 2021.
Lampard lék með enska landsliðinu í fimmtán ár og er sjöundi leikjahæstur í sögu þess með 106 landsleiki og sá tíundi markahæsti með 29 mörk. Hann er með leikjahæstu mönnum í sögu úrvalsdeildarinnar þar sem hann lék 148 leiki með West Ham, 429 með Chelsea og 32 með Manchester City en hann skoraði 177 mörk í deildinni.
Lampard tekur við af Rafael Benítez sem var rekinn fyrr í þessum mánuði. Ekkert hefur gengið hjá Everton undanfarna mánuði og eftir góða byrjun á tímabilinu í ágúst hefur liðið sigið niður í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem það er aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar.